Draumórar í íslenska skammdeginu...

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Oh, scusa, pensavo che stavo parlando danese!

Síðan ég lærði ítölsku hef ég oft átt í vandræðum með að segja hvað klukkan er á réttri íslensku, síðast bara í dag. Þegar klukkan er t.d. hálf átta segi ég oft að hún sé hálf sjö, sem sagt sjö og hálfur verða að hálf sjö hjá mér. Mér finnst þetta oft mjög kjánalegt af mér. Eftir að ég lærði ítölsku hef ég líka átt í vandræðum með að tala dönsku! Einhvern vegin hef ég glatað talhæfninni og þegar ég reyni að tala dönsku byrja ég að babbla á reiprennandi ítölsku! Mamma mín aftur á móti sem talar mjög góða dönsku slettir dönskunni í enskuna.

Þegar ég fer til Ítalíu hugsa ég oftast á ítölsku og er mér það mjög minnisstætt eitt skiptið þegar ég talaði við hana Önnu Guðrúnu í síman að ég gat ekki munað ákveðið orð á íslensku og við erum að tala um að ég fletti ítalska orðinu upp til að geta sagt það á íslensku! Áður en ég náði tökum á ítölskunni fóru flest öll samskipti mín fram á ensku og ég hugsaði því á ensku en það breyttist svo smá saman yfir á ítölsku.. Þegar ég kom heim aftur eftir árs dvöl átti ég svo erfitt með að skipta yfir á íslensku. Aumingja Anna Guðrún sem fór með mér í Smáralindina daginn eftir að ég kom heim skildi ekkert það sem ég var alltaf að segja og bað mig því sérstaklega að kenni henni að segja "Ég tala ekki ítölsku" (non parlo italiano). Annað sem ég lenti í þegar ég kom heim var að tala með hreim! Ég var með hreim í amk 3 mánuði eftir að ég kom heim sem var líka mjög kjánalegt, en kannski afsakanlegt þar sem ég hafði ekki hitt Íslending í 10 mánuði!

Í sumar fór ég svo í spænsku skóla og náði spænskunni nokkurn veginn á 5 vikum, sem er samt pís off keik ef maður kann ítölsku! Þá tókst mér líka að hugsa nokkurn veginn á spænsku, eða itañol eins og kennarinn minn kallaði það. Þegar ég hitti svo danska konu á flugvellinum í köben á leiðinni heim frá Spáni gekk mér svo erfilega að tala við hana sökum þess að ég fór ósjálfrátt að hugsa á itañol við það að vera ekki að tala íslensku en samt að reyna að hugsa á íslensku til þess að geta hugsað upp setningar á dönsku! Náðirðu þessu?

Hvað gerir það þá eiginlega að verkum að eftir að hafa lært eitt tungumál dettur annað eiginlega út? Eða er það þarna einhversstaðar og sprettur fram um leið og þú ert kominn í rétta umhverfið??

En málið er þá, mun ég geta talað dönsku næstu helgi?