Draumórar í íslenska skammdeginu...

miðvikudagur, mars 26, 2008

tilgangur eða tilgangsleysa?

blogg er rosalega vinsælt fyrirbæri...

Með bloggum er hægt að fylgjast með því hvað fólk sem maður þekki (eða þekkir ekki) er að gera og þarf því ekki að koma af fjöllum þegar maður hittir það næst. Þetta getur líka verið voðalega þægilegt þegar vinir manns í útlöndum eru virkir bloggarar því þá veit maður hvað þeir eru að gera og þarf ekki t.d. að vera í stöðugum bréfaskriftum við þá. En samt fylgja þessu ákveðnir gallar. Ef þú veist allt um manneskjuna af blogginu þarftu ekkert að hitta hana til að vita hvað hún er að bralla sem gerir það að verkum að væntanlega munið þið fjarlægjast hvort annað. Persónulega hef ég allavega fundið fyrir þessu.. Ég hins vegar datt algjörlega út úr þessum bloggheimi þegar ég hætti að blogga sjálf (áður átti ég svona sérstakan blogg hring) og veit bara ekkert um sumt fólk sem ég kallaði vini mína þegar ég var í menntaskóla! En það gerir aftur á móti tilviljunarkennda hittinga skemmtilega en samt pínu vandræðalega - eins og í strætó eða á laugarveginum á djamminu.

Við lifum sannarlega á upplýsingaöld og það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að finna mikið um einstaklinginn á netinu, en hvernig spilar svo virðing við einkalífið inn í þetta? Við úthellum sál okkar og öllum okkar skoðunum á bloggsíðum - hver er tilgangurinn í því? að koma með leiðinleg komment fyrir framan alla þannig að allt fer að loga í netheiminum og fá svo birt um sig frétt í 24 stundum eða fréttablaðinu? Er maður eitthvað meira kúl fyrir vikið?
mér finnst þetta pínu kjánalegt... En blogg eru kannski bara góð afþreyging - ég veit allavega að ég á að vera að læra núna en ekki að blogga...

annar punktur er að nú veit ég að bæði amma mín og systir hans pabba eru að lesa bloggið mitt (og guð má vita hverjir fleiri!). Setur það mér einhverjar skorður um það hvað ég megi blogga um? Þetta setur mig í ákveðna klípu. Augljóslega er ég ekki í sama hlutverki þegar ég er með vinum mínum og þegar ég er í fjölskylduboði. Til að gera þetta nú pínu fræðilegt... Ég get augljóslega ekki talað við ömmu mína um til dæmis hvað ég var ógeðslega full um síðustu helgi og talið upp alla þá skandala mína sem fylgdu því. Ég get heldur ekki leikið þessa feimnu, víðsýnu og vel uppöldnu stelpu sem ég hef verið stimpluð sem hjá fjölskyldunni þegar ég er með vinkonum mínum. Fólki vill oftast gefa sem besta ímynd af sér og kemur því til skila í samskiptum við annað fólk. Þegar það eru svona mismunandi hópar sem lesa bloggið mitt hvernig á ég þá að haga mér?

En hver er svo tilgangurinn með því að skrifa ef enginn má lesa?
- af hverju að skapa ef það er bara fyrir sjálfan sig?

ég veit ekki alveg hvort þið fattið pointið mitt þar sem það er kannski soldið út og suður EN... í alvöru, er þessi blogg síða ekki of bleik?!