Draumórar í íslenska skammdeginu...

miðvikudagur, apríl 30, 2008

súrt


prófin eru byrjuð.. þannig að nú má búast við virkum bloggurum! ;)
Mig langar til að deila með ykkur tveimur mómentum sem ég átti í dag.. Sem, ja.. voru pínu spes :)
--
Í dag sat ég á bekk í hljómskálagarðinum í nýstings kulda og las bók með iPodinn í eyrunum.

Skyndilega byrjaði svo kafli úr Messu úr C eftir Beethoven.

Þá var eins og stund og staður hefðu horfið sjónum mínum og ég sveif á einhvern stað fjarri öllum kulda og grámyglulegu vorinu sem var búið að taka sér bólfestu í hljómskálagarðinum.

Ég kunni hverja nótu og hvert orð og langaði helst til að byrja að syngja!

Tónarnir sendu mér smá von inn að hjartarótum og ég fann hvernig blóðið hitnaði og kastaðist um allar æðarnar og hvernig vonin færði þannig hita í kroppinn.

Það var líka eins og áhyggjur, hugsanir og tilfinningaflækjur mínar hefðu leitað skjóls á milli hrörlegra runnanna og athyglin ein beindist að tónlistinni og þeim stað sem hún færði mig á. Skyndilega varð heimurinn heldur ekki eins hræðilegur og hann hefur verið upp á síðkastið og þessi próf virtust vera fjarræn og tilgangslaus.

---


Seinna þennan sama dag sat ég á kaffihúsi og skrifaði ljóð.
Þetta hljómar kannski voða artí og töff/asnalegt (eftir því hvernig augum þú lítur á það) en var það í rauninni ekki.


Mér tókst að eyðileggja þetta móment algjörlega með því að panta mér kakó og í stað þess að sitja í þykkum reykmekki á litlu vinalegu kaffihúsi innan um aðra djúpt þenkjandi huga sat ég á hrannalegu nýstárlegu kaffihúsi í Hamraborginni – miðbæ Kópavogs, sem er örugglega ömurlegasti miðbærinn sem finnst á landinu!

En maður getur nú víst ekki ráðið því hvenær listagyðjan kíkir í heimsókn þannig að það var um að gera að nýta sér tækifærið þegar hún bankar upp á, sama í hvernig umhverfi maður er :)

---
Og nú ætla ég að setja diskinn með upptökunni af messunni í spilaran og hlusta :)