Draumórar í íslenska skammdeginu...

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Oh, scusa, pensavo che stavo parlando danese!

Síðan ég lærði ítölsku hef ég oft átt í vandræðum með að segja hvað klukkan er á réttri íslensku, síðast bara í dag. Þegar klukkan er t.d. hálf átta segi ég oft að hún sé hálf sjö, sem sagt sjö og hálfur verða að hálf sjö hjá mér. Mér finnst þetta oft mjög kjánalegt af mér. Eftir að ég lærði ítölsku hef ég líka átt í vandræðum með að tala dönsku! Einhvern vegin hef ég glatað talhæfninni og þegar ég reyni að tala dönsku byrja ég að babbla á reiprennandi ítölsku! Mamma mín aftur á móti sem talar mjög góða dönsku slettir dönskunni í enskuna.

Þegar ég fer til Ítalíu hugsa ég oftast á ítölsku og er mér það mjög minnisstætt eitt skiptið þegar ég talaði við hana Önnu Guðrúnu í síman að ég gat ekki munað ákveðið orð á íslensku og við erum að tala um að ég fletti ítalska orðinu upp til að geta sagt það á íslensku! Áður en ég náði tökum á ítölskunni fóru flest öll samskipti mín fram á ensku og ég hugsaði því á ensku en það breyttist svo smá saman yfir á ítölsku.. Þegar ég kom heim aftur eftir árs dvöl átti ég svo erfitt með að skipta yfir á íslensku. Aumingja Anna Guðrún sem fór með mér í Smáralindina daginn eftir að ég kom heim skildi ekkert það sem ég var alltaf að segja og bað mig því sérstaklega að kenni henni að segja "Ég tala ekki ítölsku" (non parlo italiano). Annað sem ég lenti í þegar ég kom heim var að tala með hreim! Ég var með hreim í amk 3 mánuði eftir að ég kom heim sem var líka mjög kjánalegt, en kannski afsakanlegt þar sem ég hafði ekki hitt Íslending í 10 mánuði!

Í sumar fór ég svo í spænsku skóla og náði spænskunni nokkurn veginn á 5 vikum, sem er samt pís off keik ef maður kann ítölsku! Þá tókst mér líka að hugsa nokkurn veginn á spænsku, eða itañol eins og kennarinn minn kallaði það. Þegar ég hitti svo danska konu á flugvellinum í köben á leiðinni heim frá Spáni gekk mér svo erfilega að tala við hana sökum þess að ég fór ósjálfrátt að hugsa á itañol við það að vera ekki að tala íslensku en samt að reyna að hugsa á íslensku til þess að geta hugsað upp setningar á dönsku! Náðirðu þessu?

Hvað gerir það þá eiginlega að verkum að eftir að hafa lært eitt tungumál dettur annað eiginlega út? Eða er það þarna einhversstaðar og sprettur fram um leið og þú ert kominn í rétta umhverfið??

En málið er þá, mun ég geta talað dönsku næstu helgi?

sunnudagur, febrúar 17, 2008

viltu vera auminginn minn?

Mig er búið að langa að blogga lengi en hef ekki haft neitt eitthvað nógu merkilegt að segja.. Margt mjög og mis merkilegt er nú reyndar búið að gerast en... ég efast um að það sé hægt að setja hérna inn þar sem aðeins brotabrot af fólkinu mundi líklega fatta og vera inn í þeim málum.. ;) EN ég ætla að reyna að finna eitthvað til að segja til að fólk haldi ekki að endurvakning bloggsins hafa farið út um þúfur...

Um daginn heyrði ég nýtt lýsingarorð yfir sjálfa mig. Það kom frá mágkonu mömmu. Hún sagði að dóttir sín (15 ára) væri eins og ég, svona aumingja-góð! Mér fannst þetta nú bara nokkuð heppilegt lýsingarorð yfir mig! Ég meina, ég vinn á elliheimili, er sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum (og AFS), er að læra mannfræði og stefni á að vinna við eitthvað tengt mannréttindindum! Er ég með aumingja-blæti? Þegar ég var í grunnskóla reyndi ég líka að vera vinkona stelpunar sem var lögð í einelti af bekknum okkar.. Djöfull var ég hugrökk ;) haha...

Ég var annars að vinna um helgina. Ég fékk pínu hrós frá einum vini mínum þar. Stuttu eftir að hafa sagt honum að ég væri að læra mannfræði í háskólanum sagði hann við mig að ég stæði mig mjög vel í hjúkrun og ætti eftir að ná langt í hjúkrunarnáminu! Ég varð að glotta aðeins, sérstaklega þar sem prófessor í hjúkrunarfræði hafði verið að reyna að lokka mig í hjúkrun nokkrum tímum áður á háskóladeginum. Þetta var bara næstum jafn krúttlegt og bónorðið sem ég fékk síðustu helgi ;)

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Stefnumót við ástina

ég átti mér stefnumót við æðislegu hælaskóna mína í gær, tók þá í leikhús, þrátt fyrir að hafa hrunið niður stigan fyrir framan húsið mitt um morguninn og meitt mig í hægri ökklanum sökum þess að ég hélt mig vera að missa af strætó. Ég var að missa af strætó til að vera skrifari, skrifari fyrir Vöku sem ég ekki einu sinni styð! Ég var látin skrifa með X-D penna sem ég var mjög ósátt við, en þetta var samt ágætt, ekki jafn slæmt og maður bjóst við. Fyndið samt hvað vökufólkið sagði sérstaklega "HÆ" við mig ef það átti leið hjá.

Ökklinn er enn sár og ég finn ekki sjúkrakassan á heimilinu, spurning hvar hann hefur lennt í flutningunum í sumar. En ég er ástfangin á hælaskónum mínum sem ég fór út með. Þetta var sko ást við fyrstu sýn. Þeir sem þekkja mig hvað best vita vel að ég er svona ballerínu-skó-týpan. Því flatbotnaðari því betra. En þessir skór eru bara svo þægilegir! ég gat gengið á þeim í snjónum úti sem þýðir að allar götur eru okkur greiðfærar!

Fyrir utan sáran ökkla þá er ég með sáran háls. Gæti verið að ég hafi fengið einhverja hægri-veiki í gær. Of mikil nærvera við hægrileikan fer allavega ekki vel í mig. Þegar ég kom heim um 13 var ég með beinverki og illt í maganum og akkurat 37° hita. sofnaði svo fyrir framan sjónvarpið eftir að hafa horft á Casanova, í minningu um Heath Ledger ;( eftir tvo tíma drattaðist ég þá á fætur, mældi mig aftur og var þá komin með 37,6. En amma mín hún Edda var búin að bjóða mér í leikhús þannig að ég skellti í mig verkjalyfum og klíndi framan í mig einhverri málingu og málaði varirnar rauðar. Við nöfnurnar fórum svo á forsýningu á leikritinu Baðstofan eftir Hugleik Dagsson. Það var mjög gott leikrit, enda hún Brynhildur að leika í því, en mér finnst hún frábær! nokkuð var um morð og nauðganir en það fylgir bara ;)


ég geri mér grein fyrir að þessi póstur var frekar stelpu/gelgjulegur en það verður bara að hafa það :P


Annars ætla ég að vera sveitó í skálholti um helgina og vera í ullarpeysu!

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Tilraun #2

Já, ég ætla að prófa að endurvekja þetta blogg.. Kannski að ef ég byrja að blogga sjálf mun ég álpast til að lesa blogg annarra *skömmustulegt-roðn*

En ég hugsa að eitthvað þurfi að skoða linka listan, ef það er einhver sem er búin að breyta um blogg eða vill vera með má kommenta ;)
(svona til þess að tryggja mér einhver komment;)

Annars segi ég þetta gott í bili..

edda mía litla